Háskólinn á Bifröst undirritaði samning við stjórnvöld í ágúst 2021 um að leiða undirbúning að stofnun Rannsóknaseturs skapandi greina. Samningurinn er liður í Skapandi Íslandi, aðgerðaráætlun stjórnvalda. Í stjórn undirbúningsnefndar eru einnig fulltrúar Listaháskóla Íslands, Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Samtaka skapandi greina.
Anna Hildur rakti í fróðlegu viðtali við Kristján Kristjánsson, þáttastjórnanda Sprengisands, hvernig skapandi greinar voru fyrst skilgreindar sem atvinnuvegur á Íslandi árið 2011 og hversu brýnt það sé að koma upp öflugum rannsóknum sem stjórnvöld og stefnumótandi aðilar geti byggt ákvarðanir sínar á. Jafnframt benti hún á nauðsyn þess að efla gagnasöfnun og tölfræði sem snýr að skapandi greinum hjá Hagstofu Íslands.