Nú er fyrstu lotu Vesturbrúar lokið framundan er jólafrí hjá hópnum.
Fyrsta lotan stóð frá 27. nóvember til 7. desember og hittist hópurinn í heildina fjórum sinnum, bæði á net- og staðarfundum. Skemmtilegur andi er í hópnum sem er fjölbreyttur og líflegur. Fyrsti fundur hópsins var á netinu. Hann var nýttur til að kynnast, fara yfir dagskránna framundan og setja leikreglur er snúa að verklagi.
Á öðrum fundi Vesturbrúar hittust þátttakendur í staðarlotu á Breiðinni. Við fengum Þórð Bergsson frá North Marine Ingedients í heimsókn en hann sagði okkur frá sinni frumkvöðlavegferð. Svava okkar leiddi hópinn í gegnum Business Model Canvas og ræddi einnig tækifærin sem geta falist í því að leita styrkja og fjárfesta til að koma hugmyndum sínum í mark. Einhver teymanna í Vesturbrú eiga möguleika á þátttöku í Gullegginu og við hlökkum til að sjá hverjir taka af skarið! Að lokum var farið í skoðunarferð um Breiðina en húsið er undirlagt af frumkvöðlum og skapandi einstaklingum í ólíkum verkefnum. Þar býðst skrifstofu- og fundaraðstaða sem hefur nýst fólki á svæðinu í kring um Akranes afar vel.
Áfram héldu fundurnir og næstu tveir voru teknir í netheimum. Mánudaginn 4. desember var svokallaður mentorafundur þar sem teymunum sem taka þátt buðust fundir með mentorum sem allir höfðu ólíkan bakgrunn og gátu því miðlað ólíkri reynslu. Kristján Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Vesturlands, miðlaði þekkingu sinni úr stoðkerfi ferðaþjónustunnar þar sem hann hefur starfað við ólík verkefni síðastliðinn 10 ár. Hlédís H. Sveinsdóttir, verkefnastjóri, miðlaði þekkingu sinni á sviði matarmenningar, stefnumótun og framkvæmd viðburða. Jakob B. Steinarsson, lífefnafræðingur, miðlaði af reynslu sinni á sviði í líftækni og matvælaframleiðslu. Skarphéðinn B. Steinarsson, rekstraraðili Sjávarborgar í Stykkishólmi, miðlaði reynslu sinni úr eigin rekstri. Magnús Barðdal Reynisson, verkefnastjóri fjárfestinga hjá SSNV, sagði frá þáttum er miða að fjármögnun og áæltunargerð. Helga Margrét hjá Landsnámssetrinu og Bjarnheiður Jóhannsdóttir hjá Eiríksstöðum miðluðu sinni reynslu úr rekstri í ferðaþjónustu en báðar búa yfir langri reynslu úr þeim geira á ólíkum starfssvæðum innan Vesturlands.
Á síðasta fyrirlestri lotunnar kom Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Alor og fjallaði um mikilvægi tengslamyndunar og sýnileika. Þá kom Bárður Örn Guðmundsson, rágjafi hjá Svatatindi og fjallaði um markaðsgreiningu og markhópa. Svava okkar fjallaði að lokum um verkefnastjórnun og viðskiptaáætlanir.
Við þökkum öllum fyrirlesurum og mentorum kærlega fyrir að taka þátt og miðla reynslu sinni. Aðgengi að svona stórum og fjölbreyttum hópi er gríðarlega dýrmætt og stækkar verkfærakistu teymanna.
Önnur lota hefst þann 8. janúar og áfram verður blandað saman staðar- og netfundum.