Úthlutun úr Blikastaðasjóði

Harpa Ósk Jóhannesdóttir, doktorsnemi við LbhÍ hlaut styrk úr Blikastaðasjóðnum og veitti honum viðtökur við brautskráningu LbhÍ í byrjun júní. Harpa er dýralæknir að mennt og hefur verið stundakennari við Landbúnaðarháskóla Íslands frá 2018. Árið 2021 hóf hún doktorsnámið sitt við skólann undir handleiðslu Charlottu Oddsdóttur, Hanne Gervi Pedersen og Mette Christoffersen.

 

Doktorsverkefnið hennar ber heitið: Kálfadauði hjá fyrsta kálfs kvígum. Meginmarkmið verkefnisins er að kanna áhættuþætti kálfadauða hjá fyrsta kálfs kvígum með annars kálfs kýr til viðmiðunar, en kálfadauði hjá fyrsta kálfs kvígum er óútskýrt og viðvarandi vandamál í íslenskri nautgriparækt. Rannsóknin fer fram á Hvanneyrarbúinu þar sem fylgst er náið með hverjum burði og haldin um það nákvæm burðarskráning. Eins eru tekin blóðsýni úr kvígum og annars kálfs kúm síðasta mánuðinn fyrir burð til greiningar á meðgönguhormónum sem gætu gefið vísbendingu um gang meðgöngunnar fyrr en ella. Hjartsláttur fóstursins er einnig mældur með sónarskoðun um kvið móðurinnar til þess að tímasetja hvenær fóstrið deyr. Slíkt hefur ekki verið gert hérlendis fyrr. Komi dauður kálfur er möguleg dánarorsök rannsökuð með krufningu á Keldum. Að auki hefur verkefnið það markmið að kanna hver þróunin hefur verið síðastliðin 15 ár á þeim búum sem tóku þátt í rannsóknarverkefninu um orsakir kálfadauða hjá 1. kálfs kvígum á árunum 2006-2008.

 

Blikastaðasjóðurinn var stofnaður árið 1999 af Sigsteini Pálssyni, fyrrverandi bónda á Blikastöðum og fjölskyldu hans, til minningar um Helgu Jónínu Magnúsdóttur, fyrrverandi húsfrú á Blikastöðum og hjónin Þ. Magnús Þorláksson og Kristínu Jósafatsdóttur, fyrrum ábúendur á Blikastöðum.

Hlutverk sjóðsins er að styrkja nemendur sem lokið hafa háskólanámi frá Landbúnaðarháskólanum til framhaldsnáms erlendis eða til rannsókna í landbúnaðarvísindum eftir því sem stjórn sjóðsins ákveður. Einnig er heimilt að verðlauna nemendur Landbúnaðarháskólans fyrir framúrskarandi árangur á burtfararprófi.

Í stjórn Blikastaðasjóðs sitja Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor LbhÍ, Magnús Sigsteinsson fyrir hönd stofnenda og Jóhannes Sveinbjörnsson dósent við deild Ræktunar og Fæðu hjá LbhÍ.

Picture of Nýsköpunarnet Vesturlands

Nýsköpunarnet Vesturlands

Deila:

Facebook
Twitter
LinkedIn

Tengdar fréttir