Seinni lotan í Vesturbrú fer af stað með krafti og mikill fróðleikur verið lagður inn hjá teymunum okkar.
Lotan hófst með ráðgjafafundum þar sem teymin gátu sótt í viskubrunn atvinnuráðgja SSV, þær Helgu og Hrafnhildi, ásamt Svövu í RATA og Thelmu hjá Nývest.
Fimmtudaginn 11. janúar var svo staðarlota í Sjóminjasafninu á Hellissandi. Dagurinn hófst á umræðum um fjárfesta og tækifæri til þátttöku í frumkvöðlakeppnum. Sem fyrr var það Svava okkar sem leiddi umræður og svaraði spurningum. Meðal þeirra góðu verkfæra sem teymin fá í Vesturbrú er gerð viðskiptaáætlunnar en það er lifandi plagg sem teymin geta nýtt sér í eigin rekstri.
Fyrir hádegi fór Thelma hjá Nývest yfir ýmsa þætti sem skipta máli í markaðssetningu, vefsíðugerð og notkun samfélagsmiðla. Markaðsmálin geta oft verið rekstraraðilum mikill frumskógur og fyrirlestur sem þessi því góð viðbót í verkfærakistuna.
Eftir hádegisverð í nýju þjóðgarðsmiðstöðinni komu í heimsókn frábærir mentorar. Notast var við nokkurs konar hraðstefnumóta fyrirkomulag þar sem hvert teymi fékk sinn tíma í ráðgefandi spjalli við mentorana.
Mentorarnir sem voru með okkur að þessu sinni voru eftirfarandi:
Ragnheiður Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri
Gyða Steinsdóttir viðskiptafræðingur hjá KPMG
Gunnar Ólafsson eigandi Algó
Anna Ólöf Kristjánsdóttir sem er einn stofnenda Ísea
Ólafur Sveinsson atvinnuráðgjafi SSV
Við þökkum þeim kærlega fyrir að taka þátt og miðla dýrmætri reynslu sinni.
Á næstu vikum mun seinni lotan halda áfram en henni lýkur með lokaviðburði í Hjálmakletti, Borgarnesi, þann 1. febrúar næstkomandi.