Vestlensk fyrirtæki hljóta styrk frá Lóu -nýsköpunarsjóð

Þann 5. júní var tilkynnt um úthlutanir úr Lóu – nýsköpunarsjóð fyrir landsbyggðina. Að þessu sinni hlutu 27 verkefni styrk um allt land að verðmæti 139 milljóna króna. Þar af voru 3 verkefni af Vesturlandi sem hlutu samtal 8.900.000 kr.- í styrk. Verkefnin sem hlutu styrk eru afar fjölbreytt en öll eiga þau það sameiginlegt að stuðla að sjálfbærni og fullnýtingu afurða. Styrkirnir nýtast til uppbyggingu innviða fyrir rannsóknir, þróun og innleiðingu nýrra aðferða og verkfæra fyrir nýsköpunarumhverfið.

Á Vesturlandi dreifðust styrkirnir á 2 staði, þ.e. í Búðardal og í Nýsköpunarsetrið á Breiðinni, Akranesi. Í Búðardal hefur verið virkur stuðningur síðast liðin ár við nýsköpun og uppbyggingu og er það heldur betur að skila sér. Þá er Breiðin á Akranesi tvímælalaust að sanna sig sem sterk stoðgrind fyrir nýsköpun og vöruþróun á Vesturlandi.

Á Vesturlandi hlutu þessi fyrirtæki styrk: 

Grammatek ehf. hlaut 3.500.000 kr.- styrk til þróunar STEM – lesara sem er hugbúnaður sem getur lesið námsbækur í stærðfræði sjálfvirkt. Hugbúnaðurinn mun stuðla að jafnara aðgengi að námi, þar sem t.d. lesblinda og sjónskerðing/blinda hamlar börnum og ungmennum sem aðeins hafa aðgengi að hefðbundnum námsbókum. Grammatek ehf. er til húsa í Nýsköpunarsetrinu Breið á Akranesi.

ALGÓ ehf. hlaut 3.000.000 kr.- styrk til þróunar á nýrri verkunaraðferð á sjávarþara. ALGÓ ehf. þróar sjálfbæra nýtingu strandauðlinda eins og sjávarþara til staðbundinnar handverksframleiðslu lífrænum matvælaafurðum, sæmeti. Framleiðsluþróun er unnin í samstarfi við Breið þróunarfélag á Akranesi, Vesturlandi og staðaðila við Patreksfjörð. Hönnuð og þróuð er alveg ný, hagkvæm nálgun við staðbundna hráefnisöflun og verkun djúpþara með farhjallaþurrkun. ALGÓ ehf. er einnig til húsa í Nýsköpunarsetrinu Breið á Akranesi.

Jakob K. Kristjánsson hlaut 2.400.000 kr.- styrk til framleiðslu og örplöntuframleiðslu á Hrym lerkiblendingi. Jakob er að þróa og byggja upp hátækni-framleiðslu fyrir hrym lerkikynblending í Búðardal. Hrymur er eftirsótt trjátegund í íslenska skógrækt en framboð er lítið. Ný aðferð til að rækta hrym frá stiklingum, sem gefur möguleika á að ná fram rætingu á smáplöntum í örbökkum, getur leyst þennan vanda.

Við óskum styrkhöfum innilega til hamingju og hlökkum til að fylgjast með framgangi þessara skemmtilegu og spennandi verkefna! 

Picture of Nýsköpunarnet Vesturlands

Nýsköpunarnet Vesturlands

Deila:

Facebook
Twitter
LinkedIn

Tengdar fréttir