Fyrsti viðskiptahraðallinn á Vesturlandi!
Umsóknarfrestur til 15. nóvember
Vesturbrú er sex vikna hraðall fyrir verkefni sem stuðla að sjálfbærri framtíð Vesturlands. Markmið hraðalsins er að efla sköpunarkraft og frumkvöðlastarf á Vesturlandi. Markmiðið er einnig og ekki síður að tengja saman fólk og hugmyndir og stuðla þannig að nýjum verkefnum og verðmætasköpun á svæðinu.
Viðskiptahraðallinn Vesturbrú er ætlaður frumkvöðlum, nýjum fyrirtækjum og nýsköpunarverkefnum innan rótgróinna fyrirtækja á Vesturlandi sem eru komin af hugmyndastigi og vilja komast lengra með sín verkefni.
Sérsniðinn hraðall fyrir vestlenskt hugvit
Sótt er um í teymum sem æskilegt er að samanstandi af einum til þremur einstaklingum. Teymin geta verið sjálfstæðir frumkvöðlar í startholunum eða starfsfólk fyrirtækja. Hraðallinn er sérhannaður með þarfir þátttökuteymanna í huga og þannig hafa þau áhrif á þá fræðslu sem stendur þeim til boða.
Hraðallinn leggur áherslu á nýjar hugmyndir og þróun fjölbreytts atvinnulífs til að stuðla að sjálfbæru Vesturlandi.
Fyrirkomulag Vesturbrúar er með þeim hætti að haldnar verða tvær lotur. Sú fyrsta verður í tímabilinu 27. nóvember – 7. desember og sú seinni á tímabilinu 8. janúar – 1. febrúar, en þann 1. febrúar verður einnig lokahóf. Vinnustofur fara fram á völdum stöðum á Vesturlandi.