Bjargey Anna Guðbrandsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastýra Gleipnis – nýsköpunar- og þróunarseturs á Vesturlandi.
Bjargey hefur viðamikla reynslu af verkefnastjórnun, viðburðarstjórnun og þverfaglegu starfi. Síðastliðin ár hefur hún haldið utan um alþjóðlegt framhaldsnám í umhverfis- og auðlindafræði og skipulagt fjölda viðburða við Háskóla Íslands en starfaði áður hjá ORF Líftækni. Bjargey er með BS gráðu í líffræði og meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun. Hún er uppalin á Staðarhrauni á Mýrum.
Gleipnir – nýsköpunar- og þróunarsetur er sjálfseignarstofnun sem var stofnuð í maí á þessu ári. Stofnaðilar eru Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst, Landsvirkjun, Borgarbyggð, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Háskóli Íslands, Íslandsstofa, Orkustofnun, Breið-Þróunarfélag, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Símenntunarmiðstöð Vesturlands, Hugheimar – frumkvöðla- og nýsköpunarsetur og Auðna tæknitorg.
Markmiðið með stofnun Gleipnis er að skapa umhverfi fyrir samvinnu, þróun og miðlun ólíkrar þekkingar á sviði rannsókna, nýsköpunar og sjálfbærni með það að leiðarljósi að styrkja samkeppnisstöðu íslensks samfélags, efla atvinnu og byggðaþróun og auka lífsgæði í landinu.
Nýsköpunarnet Vesturlands óskar Bjargeyju til hamingju með starfið og hlakkar til samstarfsins.